Scary?
Gamlar draugasögur sem ég gróf upp:
Eftirfarandi atburðir gerðust í Kópavogi en þar hefur föðurfjölskyldan mín búið í fjölda ára. Þegar amma mín og afi fluttu með börnin sín sex að X 54, í Kópavogi urðu þau þess fljótlega áskynja að þar var ekki allt með felldu. Í húsinu voru alltaf einhver óútskýranleg læti, brak og brestir án þess að nokkur hefði hugmynd um afhverju þessi hávaði stafaði eða hvaðan hann kom. Þegar ástandið var sem verst neituðu iðnaðarmenn sem voru að vinna í húsinu að vera einir í því og luku þeir oftast vinnu sinni áður en tók að dimma. Fjölskyldan komst fljótlega að því að þau voru ekki einsömul í húsinu. Í eitt skipti kom langamma mín sem bjó yfir töluverðri skyggnigáfu í heimsókn og sá hún grátandi konu sitja í stól í stofunni. Í annað skipti sá systir hans pabba ókunnugan mann fyrir aftan sig í speglinum þegar hún var að bursta tennurnar. Það var varla vinnufriður í húsinu og var heimilisfólkinu ekki farið að litast á blikuna þegar það varð vitni að því að símtólinu var lyft upp og niður án þess að nokkur sjáanlegur væri þar nærri. Sagan segir síðan að hann faðir minn hafi kvatt draugaganginn niður fyrir fullt og allt eitt skiptið þegar hann var að fara sofa. Eins og vanalega heyrði hann brak og bresti og óhugananleg hljóð eins og einhver væri að strjúka meðferð veggjunum. Nú væri mælirinn hins vegar orðinn fullur. Faðir minn tók sig til og hrópaði hárri röddu á þessar furðuverur: "Hættið þessu, hættið þessu." "Þið megið vera hérna ef þið látið okkur í friði." Eftir þetta varð heimilisfólkið að X, 54 ekki vart við neina dularfulla atburði þar á bæ.
Í húsi ekki langt frá heimili föðurfjölskyldu minnar stóð gamalt hús sem hafði verið í eyði í nokkur ár. Í eitt skipti þegar faðir minn og vinir hans voru í feluleik ákvað einn þeirra að koma sér vel fyrir í gamla húsinu. Hann var þó ekki lengi að forða sér út. Dauðhræddur og másandi hljóp hann út til vina sinna og sagði að hann hefði heyrt óhugnanlegan andardrátt þarna inni. Vinir hans trúðu honum ekki í fyrstu en skiptu sumir um skoðun þegar þeim var sagt af nágrönnum sínum að í húsinu hefði átt heima gamall maður sem hét Ísleifur. Hann var asmasjúklingur og hafði andað eins og strákurinn lýsti.
HÚKABÚKA!
1 Comments:
At 2:07 PM,
Anonymous said…
This comment has been removed by a blog administrator.
Post a Comment
<< Home