Gullrósa tjáir sig um allt og ekkert...

Thursday, August 03, 2006

Sporðdrekinn (23. október - 21. nóvember)

Árstími: Sporðdrekans er mitt haustið. Á þessum tíma styttist dagurinn óðfluga og skammdegismyrkrið eykst. Gróðri hnignar, lauf eru fallin af trjám, frost sest í jörð og veður versnar. Sálræn áhrif nóvembermánaðar á mannfólkið eru þau að það leitar inn á við í auknum mæli. Hjá flestum er einungis um tímabundið ástand að ræða, en fyrir Sporðdrekann er þessi tími mótandi og setur mark sitt á sálina. Hann er því heldur dulur og lifir töluvert í eigin heimi.
Tilfinningar: Sporðdrekinn er tilfinningaríkur, viðkvæmur og frekar varkár. Að öllu jöfnu virðist hann hægur og rólegur á yfirborðinu, en tilfinningar ólga oft undir niðri. Hinn dæmigerði Sporðdreki er heldur fámáll en kjarnyrtur þegar hann talar á annað borð (staða Merkúrs í merki hefur töluverð áhrif á talanda). Hann vill vera hreinskilinn og er lítið gefinn fyrir yfirborðsmennsku. Þegar sagt er að Sporðdrekinn sé dulur þarf að hafa eitt í huga. Hann er næmur og tekur tilfinningar og líðan annarra auðveldlega nærri sér. Hann heldur fólki því oft frá sér í varnarskyni. Einnig vill hann kafa djúpt ofan í það sem hann tekur fyrir og er því lítið fyrir yfirborðskenndan kunningsskap eða samræður. En þegar Sporðdrekinn er með fólki sem hann treystir fyrir tilfinningum sínum er hann alls ekki dulur. Þá er hann oft stjórnsamur og opinskár og á til að ræða mál sem öðrum finnst óþægilega persónuleg. Sporðdrekinn getur því verið dulur og lokaður gagnvart ókunnugum eða þeim sem skilja hann ekki, en að öðru leyti kjarnyrtur og opinskár.
Stjórnsemi: Sporðdrekinn er eitt af stöðugu merkjunum. Það táknar að hann er fastur fyrir og ósveigjanlegur í persónulegum stíl sínum og viðhorfum. "Nei, þetta geri ég aldrei," segir hann og verður ekki haggað. Þó hann geti virst rólegur á yfirborðinu er hann ráðríkur og stjórnsamur undir niðri. Hann er í raun launfrekur og þarf að ráða, að minnsta kosti yfir eigin umhverfi og lífi.
Rósemi eða ákafi: Svo virðist sem framkoma Sporðdrekans skiptist í tvö horn. Annars vegar er hinn hægi og rólegi Sporðdreki sem heldur sig út af fyrir sig og er áhorfandi. Hins vegar er maður með kraftmeiri og opnari framkomu, sem er krefjandi, ráðríkur og stundum eilítið öfgafullur í ákafa sínum að komast áfram og gera það sem hann ætlar sér.
Alvara: Alvörugefni er einkennandi fyrir Sporðdrekann. Hann er skapstór og tilfinningaríkur og tekur mjög ákveðna afstöðu með eða á móti mönnum og málefnum. Hann elskar eða hatar. Hann vill ganga heill að hverju verki, hvort sem er um vinnu, ást eða áhugamál að ræða. Hann er lítið fyrir hálfkák og vill komast til botns í hverju máli. Sporðdrekinn er því ekki maður sem á auðvelt með að skipta sér á milli margra ætlunarverka.
Einbeiting: Alvörugefni Sporðdrekans og þörf fyrir að komast til botns tengist öðrum persónuleikaþætti, sem er einbeiting. Hann hefur þann hæfileika að geta einbeitt sér að ákveðnum málum og útilokað umhverfi sitt og annað sem er óviðkomandi. Segja má að honum hætti til að fá einstök mál á heilann, svo jaðri við þráhyggju.
Kaldhæðni: Skopskyn Sporðdrekans birtist oft í beittum og kaldhæðnislegum athugasemdum. Hann á til að "stinga" með eiturbroddinum fræga þegar sá gállinn er á honum. Hann er því erfiður andstæðingur og vont að lenda í rimmu við hann, enda á hann til að vera grimmur ef fólk reitir hann til reiði eða stendur í vegi fyrir honum. Hann berst hins vegar af sama krafti fyrir þá sem honum þykir vænt um og er að öllu jöfnu traustur og góður vinur.
Dulúð: Sporðdrekinn hefur áhuga og hæfileika á sviði rannsókna. Hann heillast oft af því sem er til dæmis dularfullt og hefur gaman af að svipta hulunni af yfirborðinu og komast að kjarna málsins. Hann hefur því oft áhuga á spennumyndum, og glæpasögum, en einnig á dauðanum, kynlífi og reyndar öllu því sem er á einhvern hátt hulið myrkri, spennu og dulúð.
Endurnýjun: Sporðdrekinn er merki hreinsunar og endurnýjunar. Hann er næmur á eigin veikleika sem og veikleika annarra, enda á hann tiltölulega auðvelt með að sjá í gegnum fólk. Hreinsunarþörf hans getur beinst að eigin persónuleika eða færst yfir á þjóðfélagið og umhverfið. Stundum lýsir hún sér þannig að Sporðdrekinn fer yfir atburði liðins dags og heitir sér því að endurtaka ekki þau mistök sem hann hefur gert. Hann getur einnig átt í mánaðalangri eða áralangri innri baráttu. Það er ekki óalgengt að hann brjóti sig niður og sökkvi djúpt í sjálfseyðingu. Hann sér gallana í fari annarra og spillinguna í þjóðfélaginu. Því er algengt að Sporðdrekinn tali um spillingu stjórnmálamanna og hafi áhuga á að stinga á kýlum mannlegs samfélags. Þessi sama orka, blönduð tilfinninganæmi, gerir að verkum að hann er að upplagi ágætur sálfræðingur eða læknir. Hann sér veikleika fólks og með réttri þjálfun getur hann hjálpað því að losa sig við vankanta sína.
Einvera: Til að endurnýja lífsorku sína og viðhalda henni þarf Sporðdrekinn að geta dregið sig annað slagið í hlé. Hann þarf á reglulegri tímabundinni einveru að halda. Ef önnur merki viðkomandi Sporðdreka eru félagslynd getur það komið honum að sömu notum að skipta annað slagið um umhverfi. Sporðdrekinn er valdamerki, sem táknar að hann þarf að ráða sínu eigin lífi og lífsháttum. Því er æskilegt að hann vinni við stjórnun eða geti sinnt eigin verkefnum án afskiptasemi frá öðrum.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home