Gullrósa tjáir sig um allt og ekkert...

Monday, September 26, 2005

Fábjáni...

I feel like an idiot!

Friday, September 23, 2005

Konur og ástin...

Var að taka til í gömlum skáp. Fann ýmsa hluti sem ég var búin að steingleyma að ég ætti, þ. á m. bókina, Konur og ástir, en í henni er að finna ýmis spakmæli sem mætir menn hafa látið falla um konur og ástina.
Rakst m.a. á eftirfarandi setningar :
Til þess að hjónaband yrði hamingjuríkt í raun og veru, yrði maðurinn að vera heyrnarlaus og konan blind. (Alphonse de Aragon)
Hneigist kona að vísindalegum viðfangsefnum, er venjulega eitthvað við kyneðli hennar að athuga. (Nietzche)
Konan óskar jafnréttis við karlmanninn. Það er hrein og bein firra. Konan er eign mannsins, en maðurinn ekki konunnar. Hún elur manni sínum börn, en maðurinn ekki henni. (Napoleon)
Fögur kona hrífur augað, göfug kona heillar hjartað. Hinn fyrrnefnda er gimsteinn, sú síðartalda fjársjóður. (Napoleon)

Thursday, September 22, 2005

Klukk...

Klukk-leikurinn er nýjasta æðið í bloggheimum! Þar sem ég hef ekki enn verið klukkuð, ákvað ég bara að klukka sjálfa mig...og ætla því að segja frá nokkrum tilgangslausum staðhæfingum um mig sjálfa...Þar sem ég hef svo gaman af því að tala um MIG ætla ég að nefna 10 atriði en ekki 5 eins og venjan er!!! :D
1) Ég fæddist með kolsvartan lokk í hárinu. Langamma mín hélt að ég væri með sót í hárinu og reyndi í fyrstu að þvo það úr. Ég er enn með svartan lokk í hárinu og er reglulega minnt á hann á hárgreiðslustofum bæjarins.
2) Þegar ég var lítil átti ég til að taka frekjuköst, þar sem ég gargaði, titraði af æsingi og varð eldrauð í framan. Hárið stóð líka út í allar áttir. Ég varð svona eins og lítið reitt lukkutröll. Ég var sko fræg frekja í fjölskyldunni...
3) Ég æfði ballet á aldrinum 5-7 ára. Kennarinn sagði við foreldra mína að ég væri efnileg. Ég hætti í ballet. Ég æfði einnig sund þegar ég var 16 ára í heila 3 mánuði. Kennarinn sagði við mig að ég flyti fallega í vatninu. Ég hætti í sundi.
4) Ég var í pössun hjá langömmu minni á aldrinum 5-7 ára, meðan foreldrar mínir voru í vinnunni, enda neitaði ég að vera á leikskóla. Langamma var mér einkar kær og kenndi mér margt, dýrmætan fróðleik sem ég mun búa að alla ævi.
5) Ég fluttist til Bandaríkjanna þegar ég var 7 ára. Þar gerðist ég bandarísk gelgja og tileinkaði mér bandaríska siði og venjur. Bandaríkin voru ævintýri sem hafði mikil áhrif á allt mitt líf.
6) Ég var fulltrúi Íslands á barnaþingi Sameinuðu þjóðanna árið 1989. Ég var klædd í íslenskan þjóðbúning og það birtist stór mynd af mér og fleiri krökkum í þjóðbúningum í New York Times. Það var einnig tekið viðtal við mig sem var útsent í íslensku útvarpi. Á ráðstefnunni hitti ég ýmsa þjóðhöfðingja, þ. á m. járnfrúnna, Margaret Thatcher. Um kvöldið bauð Steingrímur Hermannsson mér út að borða.
7) Á mínum unglingsárum var ég með hreingerningaræði á háu stigi og eyddi drjúgum hluta af mínum frítíma í að skúra, skrúbba og bóna. Ég hafði stundum ekki tíma til að hitta vinkonur mínar, af því að ég var að taka til! Ég held þetta hafi verið hluti af fullkomnunaráráttu sem síðan beindist inn á önnur svið. Í dag er ég algjör sóði.
8) Á mínum menntaskólaárum fékk ég mikinn áhuga á mannréttindum og minnhlutahópum og bera margar ritgerðir sem ég skrifaði á þeim árum þess merki. Til að mynda skrifaði ég ritgerðir um flóttamenn, réttindi barna, réttindi heyrnalausra, réttindi kvenna og barna á tímum iðnbyltingarinnar og algildi mannréttinda.
9) Mín helstu áhugamál eru að lesa góðar bækur og hlusta á tónlist.
10) Ég velti því stundum fyrir mér hver fæðingartilgangur minn sé hér á jörðu.

Tuesday, September 20, 2005

Barn í Bíafra

Ljóðið, Barn í Bíafra, eftir Njörð P. Njarðvík, var uppáhalds ljóðið mitt sem unglingur. Það kannast allir við að hafa verið í þeim sporum sem ljóðið lýsir og ljóðið endurspeglar á vissan hátt líðan mína akkurat núna:

Barn í Bíafra
bregður upp mynd sinni
eitt andartak
guðar það
á glugga sjónvarpsins

eitt andartak
horfir hungrið
inn í huga þinn
úr tærðu andliti
angistarfulls barns

eitt andartak
horfist sekt þín
í augu við sekt þína

eitt andartak
kemst þú við
klökknar og segir:
blessað barn
hvað þú átt bágt

og slekkur á sjónvarpinu.

Sunday, September 18, 2005

Næturdrottningin

Smásaga eftir undirritaða, 16 ára að aldri:
Ég gekk framhjá honum í dag og við horfðumst í augu. Eitt andartak horfði ég í augu hans og hann í mín. En hann sá mig samt ekki, heldur horfði í gegnum mig. Ég var ekki til staðar. Hann þekkti mig ekki. Hann vissi ekki að það var ég sem hann hafði haldið þétt upp að sér og dansað við kvöldið áður. Það var þá sem ég angaði af rósum, var mjúk eins og silki og falleg eins og hvít dúfa sem breiðir út vængi sína tilbúin til flugs. Í þennan stutta tíma átt ég heiminn. Mitt var valið - valdið. Allra augu beindust að mér. Kvöldið var mitt. Í örskamma stund leið mér eins og ég væri miðpunktur alheimsins. Hann vildi ekki sleppa mér en að lokum þegar ljósin voru slökkt og allt var orðið hljótt hljóp ég eins hratt og fætur toguðu út í svart myrkrið. Í burtu frá athyglinni - honum. Ég hljóp svo hratt að drulla skvettist í ljósa kjólinn. Himininn grét og svört tár runnu niður kinnarnar. Andlitið klesst, fæturnir votir. Boli beit í kinnarnar. Ég var ekki lengur drottning næturinnar. Valið - valdið var mitt. Þegar ég síðan mætti honum í dag, ómáluð með úfið hár, í víðu joggingbuxunum og svörtu stígvélunum þá sá hann mig ekki. Hann þekkti mig ekki, næturdrottninguna. Hann gekk bara framhjá mér. Skimaði í kringum sig, í leit að einhverju...

Friday, September 16, 2005

Ástin...

Brot úr dagbókarfærslu undirritaðrar, 16 ára að aldri:
Ef hann bara vissi hvernig hug ég bæri til hans. Vissi að ég hugsaði um ekkert annað en hann. Vissi að mig dreymir hann á hverri nóttu en þá ferðumst við saman í skýjum himinhæða. Við tvö ein. En þegar við vöknum á ný í sitthvoru rúminu er allt eins og það var. Minningin er ekki einu sinni eftir. Hann er ástæða fyrir gleði minni, tilhlökkun og brosi en einnig fyrir sorg minni, kvíða og tárum. Ástin veitir manni hamingju en veldur manni í senn hryggð og tekur frá manni skynsemi, vit og styrk. Ástin er úrþvætti...

Skunk Anansie...

Muniði eftir Skunk Anansie? Ég var að enduruppgötva hvað hún er mikið æði...fílaði hana í botn þegar ég var 17 ára - fór á tónleika með henni og alles. Er að hlusta á diskinn hennar: Stoosh - algjör snilld!

Thursday, September 15, 2005

Bubbi.is

Rosalegir textarnir hans Bubba á nýju geisladiskunum hans, Ást og Í sex daga fjarlægð frá Paradís. Maður hreinlega finnur til með manninum...Fyrir þá sem fíla Bubba þá mæli ég með því að þið lesið textana hans á Bubbi.is

Sunday, September 04, 2005

Blogg...

Jæja, skyldi vera komin tími á smá blogg? Ég er bara búin að liggja í leti undanfarnar tvær vikur... aaahhh... lesa bækur, glápa á tv, elda góðan mat, hlusta á tónlist, spóka mig um í miðbænum, Smáralindinni og þar fram eftir götunum...
Ég lagðist líka í smá flensu, var rúmliggjandi í tvo daga, með hita og hálsbólgu - ekki gaman! En það var hugsað vel um mig á meðan. Eiginmannsefnið var svo sætur að hjóla á Vegamót og ná í heita kjúklingasúpu handa mér, með kjúklingi aðsjálfsögðu, osti og alls kyns grænmeti. Mjög hollt og gott. Síðan keypti hann handa mér "chick lit" tímarit og bók sem mig hefur lengi langað í - Lovely Bones - en hin eini sanni Spielberg er víst að fara gera kvikmynd eftir umræddri bók.
Skellti mér síðan í Smáralindina í dag og keypti tvær afmælisgjafir. Fór síðan í Rúmfatalagerinn og keypti mér barnasokka á 99 kr. stykkið. Mig vantar alltaf sokka, ég á aldrei sokka! Er farin að ræna sokkum frá foreldrum mínum, systrum og eiginmannsefninu. (engin er óhultur) Held það sé sokkaskrímsli í þvottavélinni okkar! Núna á ég allavega fullt af fallegum bleikum stelpusokkum með myndum af Winnie the Pooh, Bratz og þar fram eftir götunum. Mig vantaði líka vettlinga og sá þessa líka sætu bleiku fingravettlinga á 149 kr. sem voru b.t.w. barnavettlingar. Já, maður er svo hand- og fótnettur! ;)
Hið ljúfa líf er hins vegar senn á enda, þar sem fyrsti skóladagurinn minn er á morgun! baaah...