Gullrósa tjáir sig um allt og ekkert...

Sunday, February 27, 2005

Veislumatur

Ég fékk heldur betur veislumat í kvöld. Ljúffeng gæs, ásamt hinu ýmsu meðlæti eins og steiktum baunum, bökuðum eplum, karteflumús og villisveppum.
Vantaði bara ís og köku í desert. Þá hefði máltíðin verið fullkomnuð! ;)
Úff....Hann karl faðir minn er harður gagnrýnandi. Minnir mig á Bubba í idol! ;)
Svakalegar draumfarir í nótt. Hvað ætli það þýði að dreyma grænan snák?

Saturday, February 26, 2005

Fjör á stúdentagörðum...

Merkilegt hvað sumt fólk getur verið barnalegt. Ég var vakin kl. 3:00 í nótt af einhverjum fyllibyttum sem voru að gera dyraat! Viðkomandi hamaðist á bjöllunni - ekki einu sinni heldur tvisvar, með stuttu millibili. Ekkert smá óþægilegt að vakna við svona hrekk! ;)

Stórviðburðir...

Í dag er merkilegur dagur því að Hanna vinkona á afmæli og hún Ásta vinkona er að útskrifast. Jibbý! Ég ætla að nota tækifærið og óska þeim báðum innilega til hamingju með áfangann! Megi þær lengi lifa: húrra, húrra, húrra!

Hér má sjá stjörnuspá afmælisbarnsins fyrir daginn í dag: Varðveittu hlutleysi þitt í starfi eða námi því þar liggur styrkur þinn út febrúar mánuð ef mið er tekið af stjörnu fiska. Reyndu eftir fremsta megni að hafa það sem almenna reglu að vera hlutlaus í garð þeirra sem þú starfar með eða fyrir.

Hér má sjá stjörnuspá viðskiptafræðingsins fyrir daginn í dag: Þolinmæði er án efa mikilvægasti hæfileiki þinn en þolinmæði felst jú í því að aðhafast lítið sem ekkert og það virðist eiga vel við stjörnu sporðdrekans um þessar mundir. Þú gætir hafa fært persónulegar fórnir síðust misseri en hafðu hugfast að þegar þú gefur af þér af heilindum og skilyrðislaust, munt þú fá laun þín hundraðföld til baka.

Thursday, February 24, 2005

Suma daga svífur maður um á bleiku skýi...

Wednesday, February 23, 2005

Ég skal syngja lítið lag...

Þegar augnlokin fara að síga þá er kominn tími til þess að fá sér kaffisopa og blogga smá! ;) Segi bara allt ljómandi gott! Það var mjög skemmtilegt að fara í skólann í dag eftir viku frí - svona á þetta að vera. Enda var ég farin að þjást af mikilli leti og aumingjaskap. (búin að komast að því að þetta er sjúkdómur, en ennþá er verið að leita af lækningu) Annars er það að frétta að eiginmannsefnið bauð Gullrósu út að borða í gær - Ítalía varð fyrir valinu en sá staður klikkar aldrei. Gullrósan fékk sér calzone að vanda enda þýðir ekkert að vera bregða út af vananum. Síðan var eiginmannsefnið svo sætur að hann gaf Gullrósu rosalega sæt bleik náttföt frá Knickerbox - sem áttu sko bara að vera þægileg en ekki sexý - en reyndust síðan mjög fleygin eftir allt saman. Ekki var það nú verra fyrir eiginmannsefnið! ;) En jæja, lítill fugl hvíslaði að mér að America´s next top model væri að byrja.
Þar til næst - addios amigos.

Monday, February 21, 2005

Bókmenntahornið...

Ég kláraði loksins að lesa bókina, Fólkið í kjallaranum, eftir Auði Jónsdóttir. Ein af jólabókunum í ár sem ég hef dregið á langinn að lesa. Sæmileg lesning, hló nokkrum sinnum upphátt, en gat ekki sett mig nógu vel í spor aðalpersónu bókarinnar.
Á aftan á bókinni má finna eftirfarandi lýsingu:
Klara ólst upp við frjálslyndi hippaforeldra og átti skrautlega æsku, en er nú í sambúð með ungum manni á uppleið. Ákveðin atvik verða til þess að hún gerir upp við hugsjónir foreldranna, jafnframt því sem hún tekst á við gildismat sinnar kynslóðar. Um leið uppgötvar hún nýjar hliðar á sjálfri sér og eigin lífi.
Þess ber að geta að fyrsta skáldsaga Auðar, Stjórnlaus lukka, var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.

Sagan endalausa

NEVERENDING STORY.....

DÚDADÚ DÚDADÚ DÚDADÚ....

NEVERENDING STORY....

Baráttukveðjur

Ég sendi baráttukveðjur til allra þeirra sem eru í prófum núna! Ég öfunda ykkur samt á morgun, því það er svo góð tilfinning að vera loksins "frjáls"
Good luck...
og við suma þarf maður að segja Break a leg! ;)
p.s. munið svo að lesa vel um andlag fjárnáms!

Sunday, February 20, 2005

Vor í loftinu?

Það er búið að vera eitthvað eirðarleysi í mér þessa viku. Ég þjáist af einbeitingarleysi á mjög háu stigi og óþoli sem lýsir sér í því að ég nenni ekki að læra og get ekki sitið kjurr á rassinum lengur en 10 mínútur. Þetta verður að teljast mjög óvenjulegt af minni hálfu.
Kannski er það lyktin af vorinu sem hefur svona áhrif á mig. Mig langar helst að hlaupa berfætt í sandinum og láta goluna leika um hár mitt... Frjáls eins og fuglinn...

Margt er skrýtið í kýrhausnum...

Það er fremur skondin sjón að sjá miðaldra konu prjóna í heitapottinum í Sundlaug Kópavogs!
Ég er búin að klára heilan Anthon Berg konfektkassa, ein! Uss...ekki segja frá! ;)

Saturday, February 19, 2005

Gott í gogginn....

mmm....af lyktinni að dæma er eitthvað sjúklega gott í matinn!!! Ég finn lykt af nautakjöti og bernaise sósu!
______________________________________________________________
Það reyndist rétt hjá mér - nautakjöt var á boðstólum í kvöld. Hins vegar var það nautakjöt a la Búrgúndí og bernaise sósan var hvergi sjáanleg. Matnum var skolað niður með uppáhalds hvítvíninu og ég er ekki frá því að ég sé örlítið tipsy! Ég vona að hvítvínið hjálpi mér að öðlast hinn lögfræðilega þankagang svo ég geti skrifað eitthvað af viti í þessari blessaðri ritgerð minni. Annars er mig farið að þyrsta í almennilegt fyllerí. Stefni á það að djamma ærlega um næstu helgi. Hver vill vera memm?

Friday, February 18, 2005

Ég skora þig á hólm!

Heima hjá mér - leysum við ekki vandamálin með slagsmálum heldur dans einvígi!
Það kom upp "smá" ágreiningur milli systra minna. Þessi eldri ætlaði í þessa yngri en ég stakk upp á því að þær skyldu nú frekar heyja danskeppni sín á milli í stað þess að berja hvor aðra!
Og viti menn...þetta tókst svona ljómandi vel en ég var aðsjálfsögðu dómari í "keppninni"
Mæli tvímælalaust með þessari aðferð - ef fólk er eitthvað ósátt út í hvort annað enda hægt að tjá sig í botn með dansinum og fá þannig útrás fyrir neikvæðar tilfinningar. ;)

Kraftaverk gerast á degi hverjum

Jæja, haldiði að ég hafi ekki bara verið vöknuð kl. 8 í morgun og mætt niður á Þjóðarbókhlöðu kl. 9 í heimildaleit. Nú þýðir ekkert annað en að bretta upp ermarnar og hefjast handa af fullum krafti! Já batnandi mönnum er best að lifa...

Thursday, February 17, 2005

Amatör...

Tók að mér hlutverk förðunarfræðings í kvöld! Bráðum fer ég að rukka fyrir þetta! ;)

Mallbrat

Mér hefur gengið illa að einbeita mér að því sem ég á að vera að gera. Skrapp í Kringluna og Smáralindina í dag. Mín kom heim með fjólubláa flauelisskó með semalíu steinum (spariskór sko) og sætan bleikan bol. Ótrúlegt að maður skuli alltaf finna eitthvað sniðugt þegar markmiðið er að kaupa ekki neitt!

Wednesday, February 16, 2005

Letihaugur

Er hægt að fá sprautu við leti?

Sodo gel

Hvernig virka þessi sodo gel? Á maður að kaupa sér svoleiðis?

Skammdegisþunglyndi?

Þoli ekki íslenska veðráttu - snjórinn kominn aftur! Er að spá í að flytja til Italíu...
Vaknaði með harðsperrur dauðans...
Ritgerðin sem ég er að vinna í núna á eftir að vera HAUSVERKUR! Komin með leið af svona óviðráðanlegum verkefnum og ritgerðum!
Gaman að þessu...

Tuesday, February 15, 2005

Naglasúpa

Alltaf gaman að skrifa ritgerð um efni sem engar heimildir eru til um! Ég verð greinilega bara að nota skáldagáfuna - því ég treysti mér ekki alveg til þess að lesa finnsku.
Mér til mikillar ánægju þá er snjórinn að mestu farin. Gullrósa skellti sér því í jogginggallann og fór út að hlaupa! (shake that ass!) Mjög stolt af sjálfri mér fyrir það - enda ár og öld síðan ég hreyfði mig síðast. Nú er átakið byrjað sko! (humm...sjáum til með það) Ég hlýt að hafa fyllst orku við þetta - því þegar ég kom inn hófst ég handa við að taka til í kompunni minni. Tók allt herbergið í gegn, ryksugaði undir rúminu, þreif rimlagardínurnar, skipti á rúminu og setti í 3 þvottavélar! Líka komin tími til...(tók síðast til í desember) Hef verið að velta því fyrir mér hvernig manneskja sem var einu sinni með hreingerningaræði dauðans fór að því að verða sóði dauðans! Allavega líður mér nú geðveikt vel í hreina herberginu mínu og get byrjað að læra! (kannski bara á morgun) Á maður annars nokkuð að læra í frí - vikunni? ;)

Draugar fortíðarinnar

Ummæli Vilmundar Jónssonar þáverandi landlæknis og þingmanns á Alþingi 1934:
"Eiginlegar nauðganir mun vera fremur fátíðar og miklu fátíðari en konur vilja oft vera láta."
Ummæli Pálma Jónssonar þáverandi þingmanns á Alþingi 1934:
"Það koma þær stundir í lífi konu, sem er þunguð, e.t.v. við óæskilegar aðstæður að hennar mati, að hún óskar þess að láta eyða fóstrinu sem hún gengur með. En það mun einnig vera jafntítt að e.t.v. fáum dögum eða fáum vikum síðar óskar hún einskis frekar en að fæða af sér og ala önn fyrir því fóstri sem hún gengur með. Þetta á sér auðvitað þær rætur að kona, sem er þunguð, verður á stundum í nokkuð annarlegu ástandi og það annarlega ástand verður til þess að hún getur tekið hvatskeytilegar ákvarðanir, ákvarðanir sem hún e.t.v. fáum dögum síðar óskar eftir að aldrei hefðu verið teknar."
Eru draugar fortíðarinnar enn að hrella okkur?

Monday, February 14, 2005

Langloka

Markmið: stytta ritgerð um 3 blaðsíður

Árangur: ritgerð styttist um 10 línur.

Eru til námskeið þar sem fólki er kennt að skrifa stuttan og hnitmiðaðan texta?

--------------------------------------------------------------------------------
Hófst handa við styttingu ritgerðar á ný! Árangur: ritgerð lengdist aftur um 10 línur. Ég gefst upp!

Starfskraftur óskast

Auglýsi hér með eftir áreiðanlegum einstaklingi í ræstingar 1 sinni í viku, 1-2 klst. í senn.

Starfslýsing: léttar ræstingar í 10 fm. herbergiskytru.

Sanngjörn laun í boði, eftir nánara samkomulagi.

Dagur elskenda

Alltaf þurfa Íslendingar að herma eftir ósiðum Bandaríkjamanna... Þegar ég bjó í Bandaríkjunum þá fékk ég helling af Valentínusarkortum þennan dag, þó aðallega frá vinkonum mínum og bekkjarsystrum. (vorum við e-ð að misskilja?) Einnig keypti maður hjartalaga nammi með ástarjátningum á... How pathetic! ;) En svo virðist sem Valentínusardagur sé komin til að vera á Íslandi - lítið við því að gera. Óska ykkur öllum gleðilegan Valentínusardag!!! Allar ástarjátningar og kveðjur, vinsamlegast afþakkaðar! :)

Sunday, February 13, 2005

Mathákur...

Er nokkuð óeðlilegt við það að gæða sér á dýrindis kjúklinga burritos - svona rétt fyrir svefninn? - klukkan að ganga 1:00.
Mér er illt í þjóhnöppunum.

Tónlistar - maraþon

Komst að því um daginn að ég gef mér alltof lítinn tíma í að hlusta á almennilega tónlist. Tók þess vegna smá syrpu áðan - The Beatles, Louis Armstrong, Elton John, Bob Dylan og Deep Purple. Ólíkir listamenn en allir snillingar á sínu sviði. Hvað get ég sagt - ég er "alæta" á tónlist.

Ummæli á Alþingi

"Ég er ekkert að kvarta yfir því að það sé álag á mér, ég hef nóg að gera og get gert meira en ég geri."
Guðni Ágústsson lanbúnaðarráðherra á Alþingi 8. febrúar er hann var gagnrýndur fyrir að sjá lanbúnaðarnefnd ekki fyrir nægilegum verkefnum.
"Í ljósi Íslendingasagna, Snorra-Eddu og samkvæmt öðrum heimildum - ef við rifjum það upp - og að Huginn og Muninn voru hrafnar Óðins, þá kemur mér nokkuð á óvart að háttvirtur þingmaður skuli telja hrafna réttdræpa allt árið um kring."
Halldór Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á Alþingi 7. febrúar í umræðu, um vernd, friðun og veiðar á villtum flugum og villtum spendýrum.

Hvað segiði...Er ekki komin tími á stjórnarskipti?

Saturday, February 12, 2005

Gráðug kerling...

Ég er ekki að taka föstuna nógu alvarlega! ;) Búin að borða alltof mikið nammi undanfarið! Þess ber að geta að tiltekinn aðili uppnefndi Gullrósu, gráðuga kerlingu, í dag og vísaði í því sambandi í hið skemmtilega lag um hina gráðugu kerlingu sem hittaði sér velling, borðaði namm namm namm...

Furðulegir kennsluhættir...

"Kennari" nokkur fer nett í taugarnar á mér. Hann kennir ekkert af viti heldur reitir af sér brandara og segir sögur í tímum - sem eru oft ekki í tengslum við námsefnið. Hann minnir mig á tiltekinn kennara sem kenndi mér í menntaskóla á sínum tíma. Sá síðarnefndi hafði sama háttinn á kennslu sinni en gerði miklar kröfur á prófum. Sá hinn sami fékk oftar en 1 sinni viðurkenningu fyrir að vera besti kennari skólans. Ég skildi það aldrei, því þrátt fyrir það að hann hafi vissulega verið fyndin og skemmtilegur, þá fannst mér hann ekkert sérstaklega góður kennari! Ætli það sé þá ekki nægjanlegt að nefna bara umrædda brandara og furðu sögur í prófinu í vor!?

Guð er kona

Texti eftir Bubba Morhens við lagið "Guð er kona" hefur verið fjarlægt, þar sem opinber birting verks sem nýtur verndar höfundaréttar er ólögleg án samþykkis höfundar.

Friday, February 11, 2005

Föstudagurinn langi...

Úff...einn af þessum dögum sem maður hefði viljað sleppa. Leið eins og glæpamanni í dag en sem betur fer var ég ekki staðin að verki! Þá held ég að sumir ættu nú að fara taka inn geðlyfin sín....

Wednesday, February 09, 2005

Afrek dagsins:

Náði að fikra mig áfram í gegnum frumskóg Alþingistíðinda þökk sé Hönnu.

Tuesday, February 08, 2005

Sprunginn!

Þá er ég sprung pung! Maður gerir þetta nú bara 1 sinni á ári! Svo byrjar fastan á morgun! ;) Ætli ofsakláði sé afleiðing af of miklu saltskjöts áti? Mér klæjar allavega ógurlega á höndunum og í framan...

Sprengidagur

Salkjöt og baunir, túkall!! Stefni á það að éta yfir mig í kvöld...Verði ykkur að góðu! ;)

Monday, February 07, 2005

Ljúfa líf, ljúfa líf...

Það er lúxus að vera í skóla, sérstaklega í háskóla þar sem akademískt frelsi er í hávegum haft! Ég er minn eigin herra, set mínar eigin reglur og ræð sjálf hvort ég fylgi þeim eða ekki. Ég er í senn handhafi löggjafarvalds, framkvæmdavalds og dómsvalds! (eða svona næstum því) Ég ræð hvenær ég fer að sofa á kvöldin og hvenær eg vakna á morgnana (sem er oftast milli 11-12 þessa dagana) Þá þarf ég ekki að fara í skólann frekar en mér sýnist! Auk þess hefur maður afsökun fyrir því að borða alls kyns óhollan mat - því jú þegar maður er að læra þá þarf heilinn sérstakt heilafóður til að fúnkera eðlilega!
Lífið er ljúft...þangað til það styttist í próf! ;)

Love is in the air!

ooo...ég er svo ÁSTFANGIN! ;)

Sunday, February 06, 2005

Heimsins besti pabbi! :)

Þrátt fyrir að ég sé orðin 24 ára gömul, þá fer pabbi enn út í sjoppu og kaupir handa mér bland í poka á laugardögum! ;)

Saturday, February 05, 2005

Banana ís í uppáhaldi...

Skrapp í ísbíltúr í kvöld. Alltaf gaman að fara í "Álfheimaísbúðina" í Faxafeni og gæða sér á gómsætum bananaís. ;)

Skyggnigáfa!? ;)

Mig dreymdi í nótt að það væri Bolludagur! Og viti menn...Það er Bolludagur á mánudaginn! ;) Mikið hlakka ég til að borða bollur með rjóma og sultu - nammi namm!

Nafnabreytingar og bernskuminningar...

Af óviðránanlegum ástæðum, þurfti ég að breyta slóðinni á bloggsíðunni minni! Nafnið Gullrósa varð fyrir valinu, til bráðabirgða. Nafnið Gullrósa, kom upp í hugann, vegna þess að þegar ég var lítil snót (5-6 ára) þá fannst mér umrætt nafn vera það fallegasta í heimi. Nafnið setti ég saman úr orðunum gull og rósa, sem vísaði í uppáhaldsblómið mitt. Ég brá mér ætíð í hlutverk Gullrósu í öllum leikjum og mín helsta ósk var að skíra dóttur mína þessu gullfallega nafni einn daginn! ;) Ef einhver er með góða hugmynd að öðru heiti, þá má sá hinn sami endilega koma því á framfæri hér.

Wednesday, February 02, 2005

Hugsana, samvisku og trúfrelsi

Sérhver maður á rétt á að vera frjáls hugsana sinna, samvisku og trúar. Í þessu felst frelsi manna til að breyta um trú eða sannfæringu svo og til að rækja trú sína eða sannfæringu, hvort heldur einslega eða í samfélagi með öðrum, opinberlega eða á einkavettvangi, með guðsþjónustu, boðun, breytni og helgihaldi.
Frelsi manna til að rækja trú sína eða sannfæringu skal einungis háð þeim takmörkunum, sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi vegna almannaheilla, til verndar allsherjarreglu, heilsu manna eða siðgæði eða rétti og frelsi.

Sumir eru meira utan við sig en aðrir...

This is an automatically generated Delivery Status Notification.

THIS IS A WARNING MESSAGE ONLY.

YOU DO NOT NEED TO RESEND YOUR MESSAGE.

Delivery to the following recipients has been delayed. hannalilly@blogspot.com

Þá veit maður allavega hvað varð um dularfullu póstsendinguna sem aldrei skilaði sér.



Tuesday, February 01, 2005

Rússibanaferð lífsins...

Ef ég ætti að líkja lífinu við eitthvað þá myndi ég líkja því við rússibana. Stundum er ferðinni heitið beint áfram, stundum upp á við, stundum blússandi ferð niður á við og stundum er ferðin hlykkjótt og snúin...